149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held að þessi ágæta stofnun sé að fara svolítið fram úr sér, að túlka þetta sem einhvers konar neyðarrétt. Það verður ekki af því ráðið, hvort sem það er nú umsögn þess ráðherra sem á sínum tíma fór fyrir samningnum um aðild Íslands að samningum um Evrópska efnahagssvæðið, að þarna hafi verið samið um einhvern neyðarrétt, eða að þetta væri grein sem þyrfti að grípa til þegar allt annað þryti og bara einu sinni eða tvisvar yfir eitthvert skeið. Þetta er ekki þannig. Það stendur bara í samningnum að ef menn telji að það sé ekki hægt að una þeirri niðurstöðu sem fengin er sé hægt að skjóta málinu aftur til EES-nefndarinnar.

Og það eigum við að sjálfsögðu að gera. Það er eiginlega nauðsynlegt að gera það núna. Við höfum í svo langan tíma velt því fyrir okkur hvort við séum að ganga of langt í innleiðingunum. Þess vegna er alveg kominn tími til núna að láta á það reyna hvort við getum fengið undanþágu frá máli sem er gríðarlega mikilvægt og stórt fyrir íslenska hagsmuni.