149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom hér inn á mál sem ég hugðist gera að umræðuefni í ræðu minni á eftir. Fyrir vikið gefst gott tækifæri til að fá álit hv. þingmanns á því, nánara álit. Það varðar þróun orkumarkaðar í Evrópu. Hv. þingmaður rakti það ágætlega hversu mikill munur er á orkuframleiðslu hér á Íslandi og orkuframleiðslu í Evrópu og þeim vandamálum sem menn eru að takast á við þar.

Fyrir vikið þætti mér mjög forvitnilegt að heyra mat hv. þingmanns á því hversu mikla pólitíska áherslu hann telur að Evrópusambandið myndi leggja á að ná tengingu við þennan eðlisólíka markað eða eðlisólíku framleiðslu hér á Íslandi. Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr því við höfum séð í gegnum tíðina að þegar Evrópusambandið hefur mótað með sér einhver meginmarkmið þá ganga menn býsna langt í því að reyna að hrinda þeim markmiðum í framkvæmd, hvað sem lýtur jafnvel lögum, ég tala nú ekki um einhverjum ímynduðum fyrirvörum eða óskum í greinargerð í þingsályktunartillögu.

Því spyr ég: Telur hv. þingmaður ekki í ljósi þessa munar á orkuframleiðslu í Evrópu og hér á landi að það sé veruleg hætta á því að Evrópusambandið muni með öllum tiltækum ráðum knýja á um að komast í tengingu við orkuframleiðslu hér og að við séum að veikja varnir okkar mjög verulega, í þeim skilningi að geta sjálf ráðið því á hvaða forsendum við kynnum að selja orku, með innleiðingu þessa þriðja orkupakka?