149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég velti hér upp spurningum við nokkra þingmenn í kvöld og hefur gengið frekar illa að fá svör við þeim, en þingmenn hafa lýst áhyggjum sínum. Það er varðandi það skref sem verið er að taka núna, að það sé enn eitt skrefið í því að færa umsýslu með íslenska orku, mögulega verðlagningu, ráðstöfun og þess háttar, völd yfir orkunni, meira í hendur yfirþjóðlegrar stofnunar utan landsteina Íslands en er í dag. Er ég þar að vitna til þess sem var í Morgunblaðinu fyrir skömmu þar sem fjallað var um samningsbrotamál framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem byggir annars vegar á þjónustutilskipuninni frá 2006 og hins vegar á reglugerð um opinber innkaup frá 2014.

Við höfum innleitt hvort tveggja. Fulltrúar okkar virðast hafa átt samtal við orkumálastjóra Evrópusambandsins, sem lýsti því í einhvers konar yfirlýsingu að Ísland væri svolítið spes og ætti þess vegna að fá sérstaka meðhöndlun. En það er nú þannig þegar kemur að þessu svokallaða fjórfrelsi og flæði vöru, fólks, fjármagns o.s.frv. yfir landamæri, að það eru aðrar reglur sem gilda þar en akkúrat þær sem orkumálastjórinn sýslar með.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé hætta á því að það skref sem nú er verið að taka með því að innleiða hér ákveðnar gerðir sem lagt er upp með, með heimatilbúnum fyrirvara, í íslenskan rétt, sé ekki í rauninni enn eitt skrefið í því að færa frekari áhrif frá Íslandi til undirstofnana Evrópusambandsins, eða í einhverjum tilvikum eftirlitsstofnunar EFTA, sem er að sjálfsögðu undir fyrirskipunum eða leiðsögn ACER. Erum við ekki að taka enn eitt skrefið í þá átt að færa völdin frá okkur?