149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir það með honum að auðvitað er verið að undirbúa jarðveginn og færa völdin undir þetta sameiginlega markaðssvæði orkunnar. Ég held að það sé alveg ljóst. Fyrirvarar og yfirlýsingar o.s.frv., eins og t.d. þessi sameiginlega yfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og orkumálastjóra Evrópusambandsins um að sérstaða Íslands sé viðurkennd — ég held að menn verði bara að vera skynsamir og átta sig á því að svona fyrirvarar hafa enga þýðingu. Þetta verður að vera gert með lögformlegum hætti fyrir sameiginlegu EES-nefndinni þar sem sitja fulltrúar EFTA-ríkjanna, sendiherrar EFTA-ríkjanna og síðan fulltrúar Evrópusambandsins. Það er rétti vettvangurinn.

Satt best að segja var ég mjög hissa þegar þessi sameiginlega yfirlýsing var gefin út. Ég hélt að menn væru komnir lengra í þessum málum og áttuðu sig á því að svona yfirlýsingar hafa enga þýðingu. Ég verð að segja eins og er að ég hélt að utanríkisráðuneytið hefði nú betri yfirsýn yfir þessi mál þegar kemur að sameiginlegum yfirlýsingum. Ég er ekki að lasta það ágæta fólk sem þar starfar. Það læðist að manni að þetta sé pólitískur vinkill sem stjórnvöld hafi tekið, hafi hlaupið til og reynt að fá þarna í gegn einhverja yfirlýsingu til að bjarga andlitinu. Þess vegna segi ég eins og er að þetta er ekki aðferðafræðin sem nota á. Það á bara að fara samningsleiðina. Hún er lögformleg og það eina sem gildir hvað þetta varðar.