149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef velt upp í kvöld áhyggjum mínum af því að enginn hefur getað fullvissað okkur um að sú aðferð sem beita á við innleiðinguna tryggi að málarekstur gegn Íslandi verði ekki raunin vegna innleiðingarinnar sem hér á sér stað, þ.e. verði þessi aðferð uppi á borðinu. Það hefur enginn mér vitandi lagt í að segja að útilokað sé að þessi aðferð komi í veg fyrir málarekstur af einhverju tagi, hvort sem Evrópusambandið sjálft, þ.e. Eftirlitsstofnun ESA, höfðar málið, eða einstaklingar eða lögaðilar. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi fengið á einhverjum fundum eða einhvers staðar vissu fyrir því að ekki sé hætta á slíku.

Mig langar líka að velta því upp við þingmanninn hvort hann hafi á fundum sínum orðið var við kynningu á orkupakka fjögur. Nú höfum við séð það í Noregi að þar hafa menn verið að fjalla um orkupakka fjögur, m.a. er fullyrt að norska ríkisstjórnin hafi fengið hann í hendur til að skoða og velta fyrir sér. Í skýrslu sem unnin var í Noregi er fjallað um orkupakka fjögur. Þar segir varðandi orkupakka fjögur að innflutningur og útflutningur með raforku megi ekki verða takmarkaður af innlendum þáttum.

Ég er ekki að biðja hv. þingmann að túlka hvað það þýðir heldur langar mig bara að spyrja hvort orkupakki fjögur hafi á einhvern hátt verið kynntur eða farið yfir hann með hv. þingmanni á fundum hans.