149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:23]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki fengið vissu fyrir því að ekki væri hægt að knýja á um — eða a.m.k. reyna að láta knýja á um það — að opnað yrði fyrir raforkutengingu milli Íslands og Evrópusambandsins, raunar þvert á móti.

Þá er aftur gagnlegt að líta til samanburðarins við kjötmálið svokallaða þar sem það er afstaða íslenskra stjórnvalda og verjenda okkar í því máli að niðurstaða ESA og ESB sé einfaldlega röng. Engu að síður erum við látin sæta því, ríkisstjórnin virðist ætla að gera það, að una þessari röngu niðurstöðu.

Í því máli var einmitt um það að ræða að hagsmunaaðilar knúðu á um að Evrópusamstarfinu yrði beitt með þessum hætti. Hví skyldu menn ekki reyna slíkt hið sama í eins stóru máli og þessi orkumál eru að verða?

Og fyrst hv. þingmaður spyr um fjórða orkupakkann þá verð ég að játa að það hefur bara ekkert farið fyrir umræðu um hann í þessari vinnu allri af hálfu ríkisstjórnarinnar, alla vega ekki svo að við vitum, við hv. þingmenn, sem er auðvitað afskaplega sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að hér hafa verið færð fram þau rök af stuðningsmönnum málsins að við verðum að samþykkja þennan þriðja orkupakka af því að hann sé einhvers konar afleiðing af fyrsta og öðrum orkupakka og einhverri þróun fortíðar.

Þá hlýtur að liggja beint við að menn á sama tíma skoði áhrifin af fjórða orkupakkanum því að þeir eru með þessu núna að búa til það fordæmi að það verði að samþykkja fjórðu orkupakkann fyrst við samþykkjum þann þriðja, þ.e. fyrst að það er ósk núverandi ríkisstjórnar að samþykkja þann þriðja.