149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi vangaveltur hv. þingmanns um hvort Evrópusambandið láti sér hugsanlega í léttu rúmi liggja að þingið samþykkir hina svokölluðu fyrirvara vegna þess að menn geri sér grein fyrir því að ekkert hald verði í þeim, þeir muni engu máli skipta. Já, frú forseti, ég tel það í fyrsta lagi mjög líklegt. Í öðru lagi tel ég líklegt að menn hafi bara dálítið gaman af þessu. Þeim þyki hálfskondið að íslensk stjórnvöld skuli fara í þennan leiðangur með þær aðferðir sem hafa verið kallaðar lofsverðar blekkingar af stuðningsmönnum Evrópusambandsaðildar, að menn hafi, ímynda ég mér ef ég þekki menn rétti í Brussel, ég kannast ágætlega við marga þar, svolítið gaman af þessu, að menn séu svona bíræfnir, að þetta geti dugað til þess að koma málinu í gegn hjá ríkisstjórninni.

Hv. þingmaður kemur þarna reyndar inn á mál sem ég hyggst gera að umtalsefni í næstu ræðu minni og læt það því bíða að mestu en vil þó nefna að einmitt vegna stöðunnar í Noregi, þar sem lítið hald hefur reynst í fyrirvörum þeirra, hefur maður grun um að Evrópusambandssinnar, m.a. í Noregi, óttist að ef málið verði aftur tekið fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni gefist Norðmönnum líka tækifæri til að rétta sinn hlut.

Þá kem ég kannski að svarinu við síðustu spurningu hv. þingmanns: Nei, ég hef ekki fengið neinar skýringar á því hvers vegna stjórnvöld náðu ekki fram eða reyndu ekki að ná fram fyrirvörum í sameiginlegu EES-nefndinni né hef ég fengið skýringar á því, ef eitthvert hald er í hinum svokölluðu fyrirvörum, hvers vegna ekki væri hægt að senda málið í sameiginlegu EES-nefndina og fá fyrirvarann þar í formi undanþágna sem hald er í.