149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég kom inn á þetta af ákveðinni ástæðu. Eins og ljóst má vera hef ég staðið hér í ræðustól fjölmörgum sinnum og spurt ólíka þingmenn og ólíka ræðumenn sömu spurninga til að leita eftir ákveðnum svörum.

En það er eitt svolítið merkilegt. Ég átti m.a. samtal við aðstoðarmann utanríkisráðherra í hliðarherbergi fyrr í dag og spurði við hvað væri verið að setja fyrirvara. Svörin voru á þá leið að fyrirvararnir væru eingöngu gagnvart stjórnarskránni okkar, þ.e. að innleiðingin sem slík, ef ég skildi rétt, þyrfti að standast stjórnarskrána. Það væri raunverulega ekki verið að setja fyrirvara við það að framselja ríkisvaldið per se, svo við töpuðum því ekki í hendur alþjóðlegra stofnana, heldur væri verið að setja fyrirvara til þess (Forseti hringir.) að við gætum komið því í gegn með tilliti til stjórnarskrárinnar. (Forseti hringir.)

Er þetta eðlileg afgreiðsla mála við innleiðingar (Forseti hringir.) á EES-gerðum? Ég spyr hv. þingmann (Forseti hringir.) þar sem hann hefur umtalsvert meiri reynslu bærði í stjórn og sem þingmaður.