149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var áhugavert. Þetta mál skýrist, þrátt fyrir allt, smátt og smátt betur og betur. Það var ákaflega áhugavert að heyra þessa túlkun úr stjórnarliðinu núna. Menn hafa verið svolítið út og suður með þessa fyrirvara, stjórnarliðið, en nú er okkur sagt að þetta snúist í rauninni bara um frestunaraðferðina gagnvart stjórnarskránni.

En þá tóku gestir utanríkismálanefndar skýrt fram að hvað það varðaði þyrftu lagalegu fyrirvararnir að vera þess eðlis að innleiðingin ætti sér ekki stað, hún tæki ekki gildi. Hér horfum við upp á að menn ætla að innleiða, ætla að láta orkupakkann taka gildi strax, en með þessum athugasemdum.

Og fyrst hv. þingmaður spyr hvort ég kannist við að innleitt hafi verið með þessum hætti áður: Nei, það geri ég ekki og það gerði reyndar enginn gestur nefndarinnar heldur. Þetta mun vera einsdæmi.