149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vissulega eitthvað til að hafa áhyggjur af. Við getum væntanlega gert okkur í hugarlund hvers eðlis rökstuðningurinn yrði þegar þar að kæmi. Við höfum heyrt nógu mikið af frösum hér um mikilvægi þess að tengjast útlöndum og vera opin og að þeir sem hafi einhverjar efasemdir um eitthvað er varði EES-samninginn séu einangrunarsinnar, og þar fram eftir götunum. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig menn myndu nálgast það ef þeir ætluðu að breyta þessu þegar þar að kemur.

En ég hef hins vegar áhyggjur af öðru í þessu. Það er að í ljósi markmiða þriðja orkupakkans geti menn einfaldlega knúið á um eða freistað þess að rutt verði úr vegi hindrunum fyrir lagningu sæstrengs. Við höfum auðvitað reynsluna af því hvernig ACER, sameiginleg orkustofnun Evrópusambandsins, hefur starfað. Hún hefur það hlutverk að ryðja slíkum hindrunum úr vegi. Hví skyldu menn þá í svona stóru forgangsmáli Evrópusambandsins ekki láta reyna á það hvort þeir fengju ekki fulltingi þessarar stofnunar til þess?

En það er líka áhugavert varðandi þennan fyrirvara eða einn af þessum meintu fyrirvörum, það hefur ýmislegt verið tínt til í því skyni að nefna fyrirvara, að það ákvæði sem setja á inn í raforkulögin um að Alþingi fjalli um lagningu sæstrengs er í rauninni bara endurtekning á ákvæði sem þar er fyrir þar sem gert er ráð fyrir að Alþingi fjalli um grunnvirki raftengingar á Íslandi og þar með talið sæstreng, auðvitað. Aðeins er bætt inn nýju ákvæði sem segir nokkurn veginn það sama, sem er auðvitað vísbending um að þetta sé gert af ákveðinni sýndarmennsku frekar en að menn telji að þetta hafi raunverulega einhver úrslitaáhrif.