149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir það með honum að í þessum efnum er náttúrlega markmið þessarar sameiginlegu stofnunar, ACER, sem á að hafa yfirumsjón með þessu, að ryðja hindrunum úr vegi. Þá er sú hætta fyrir hendi að litið verði svo á innan skamms tíma að Ísland hafi sett þarna hindranir sem felist í lagaboði þess efnis að hér verði ekki lagður sæstrengur, að á það geti verið litið sem hindrun.

Ég held einmitt að hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hafi komið vel inn á það hér áðan í ræðu sinni. Það er mjög líklegt að Evrópusambandið líti svo á að þeir fyrirvarar sem við setjum komi í raun og veru ekki til með að halda og þess vegna geti (Forseti hringir.) áform þeirra gengið eftir um að hér verði sameiginlegur raforkumarkaður þar sem Ísland verði þátttakandi.