149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:41]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það nægir bara að lesa um tilgang ACER. Stundum veltir maður því fyrir sér hvort stuðningsmenn þessa máls, eins og þeir tala, hafi ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér efni þriðja orkupakkans eða starf ACER. Þar kemur skýrt fram að þegar einhverjir aðilar sem telja sig hafa fjármagn og hafa áhuga á því að tengja saman raforkumarkaði, og þar með vinna að þessum markmiðum þriðja orkupakkans, skuli þau stjórnvöld eða þær orkustofnanir, nokkurs konar undirstofnanir ACER, sem verða þess áskynja, tafarlaust láta ACER vita af þeim áhuga svoleiðis að ACER geti fylgst með framgangi málsins og því að ekki séu settar hindranir í veg slíkra framkvæmda.