149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni framtíðarskipan orkumála, þ.e. að við ræðum aðeins: Hvað svo? Við höfum aðeins komið inn á það en ég held að við þurfum að taka þá umræðu svolítið lengra.

Hér hafa stjórnarliðar og fylgismenn orkupakkans úr stjórnarandstöðu keppst við að hæla sér og öðrum fyrir mikla og góða vinnu sem hafi verið unnin. Ég ætla svo sem ekki að draga úr því að fólk hafi verið að vinna. En ég verð að segja að það hefði þurft að vinna mun meira í þessu máli.

Mig langar til að gera að umtalsefni skýrslu sem lítillega hefur verið komið inn á hér, sem er rýnd í Bændablaðinu þann 12. apríl sl. Þar er gert að umtalsefni að í Noregi hafi nýlega verið tekin saman skýrsla um það sem kallað er staðreyndir orkukerfis Evrópusambandsins, iðnaðinn og orkuverð. Skýrslan, sem heitir á frummálinu „EUs energiunion, strømprisene og industrien“, byggist á rannsóknum og skjalfestum gögnum. Með leyfi forseta, segir m.a. í skýrslunni:

„… mótun lagaramma fyrir sameiginlegt orkunet Evrópu sé nú lokið með gerð orkupakka 1, 2, 3 og 4. Lauk því ferli í desember 2018 sem samþykkt í ESB. Hefur þessi fjórði pakki verið sendur ríkisstjórn Noregs með það í huga hann verði felldur inn í EES-samninginn í kjölfar samþykktar Stórþingsins á orkupakka 3 í byrjun síðasta árs. Það er þó háð því að Ísland samþykki einnig innleiðingu á orkupakka 3.“

Í þessari skýrslu er yfirþjóðlegt vald ACER staðfest. Mikilvægustu áhrifin af samþykkt orkupakkanna verða þau að Noregur verður að taka upp markaðsverð sem gildir á sameiginlegum markaði Evrópu. Innleiðingin á orkupökkum þrjú og fjögur þýðir gríðarlegar fjárfestingar í sæstrengjum og öðrum línulögnum, áætlaðir eru um 140 milljarðar norskra króna — kemur fram í fréttinni — fram til 2040. Það er án tillits til þess hvort umframorka sé fyrir hendi í Noregi til að fæða þá strengi eða ekki. Þar kemur inn á það sem ég var að ræða áðan um flutningsnetið, hvort við þurfum að standa undir þeim skuldbindingum að ef krafan kemur þurfum við að byggja upp flutningsnet.

Það er ljóst að stóraukinn þrýstingur verður á svæði eins og Ísland og Noreg að virkja meira til þess að fæða þessi orkuskipti í Evrópu. Ég held að það liggi alveg fyrir. Samkvæmt þessari skýrslu þá mun orkuverð stórhækka í Noregi og líklegt að það myndi þá gera það hér á Íslandi líka og lönd eins og Noregur og Ísland mundu þá missa það samkeppnisforskot sem við höfum í dag vegna hækkunar á orkuverði. Það er þá eitthvað sem við þurfum að huga vel að vegna þess að við erum með gríðarlega mikið af iðnaði og framleiðslu hér á landi sem er mjög háð orku og ekki síst umhverfisvænni orku því að hún er raunverulega söluvara í sjálfri sér þegar kemur að matvælum sem framleidd eru með umhverfisvænni orku.

Í þessari sömu skýrslu er niðurstaða sem segir, með leyfi forseta:

„… [að] iðnaður sem eigi allt undir hagstæðu orkuverði, eins og pappírsiðnaður og málmiðnaður, leggist mögulega af og 12.000 manns, einkum á landsbyggðinni, geti þar misst vinnuna. Hliðaráhrifin eru talin verða þau að 30.000 manns til viðbótar missi vinnuna. Sameiginlega orkukerfi Evrópu sé því veruleg ógn við atvinnulífið í Noregi.“

Við hljótum að geta velt því upp hér hvort það sama gæti ekki bara átt við hér á Íslandi. Það er ljóst að markmið ACER er að tryggja heildarnettengingu, ekki bara innan orkukerfisins heldur er það sem á eftir fylgir í fjórða og fimmta pakkanum: Þar er farið að tala um „European super grid“, þar sem við erum jafnvel farin að tengja við aðrar heimsálfur.

Samkvæmt frétt sem ég las nýlega á netinu, um smíði fimmta orkupakkans, er talað um að skipta þessu upp í svæði, ekki það sem eru kölluð sjálfstæð ríki heldur svæði. Þá verður í raun og veru enn og frekar útþynnt það vald sem við þó teljum okkur hafa.

Það mætti leiða að því líkur að hér á Íslandi myndi þetta einnig eiga við, þ.e. að við yrðum skilgreind sem svæði, mögulega með Noregi eða einhverjum öðrum, (Forseti hringir.) og þar með myndum við kannski ganga enn lengra en við erum að gera hér.

Ég sé að ég er búinn með tímann og ég næ ekki að klára þessa ræðu. Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.