149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að þetta sé einmitt kjarnaatriði í umræðunni hvað innanlandsmarkaðinn varðar og þann iðnað sem hér er. Hagstætt orkuverð er samkeppnisforskot sem íslenskur iðnaður hefur í dag samanborið við samkeppnisfyrirtæki í Evrópu og svo sem sama þó að við horfðum í hina áttina. Ef það samkeppnisforskot fyrirtækja hverfur versnar annaðhvort staðan sem því nemur, með ófyrirséðum afleiðingum, eða að stjórnvöld þurfa með einum eða öðrum hætti að skila þessu til baka. Við sem hér erum þekkjum hversu erfitt hefur verið að koma á einfaldri lækkun tryggingagjalds, sem ég lít á sem sanngirnismál hvað rekstrarumhverfi fyrirtækja varðar.

Sér hv. þingmaður fyrir sér að (Forseti hringir.) samkeppnisforskotið sem tapast með hærra raforkuverði verði bætt upp með öðrum hætti?