149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir því í máli hans að hann talaði um öra þróun á sviði orkuöflunar og ræddi þar um vindorkuver og ýmislegt annað. Ég vil bara í því sambandi benda á það í upphafi hversu ör þróunin hefur í raun verið á síðustu áratugum. Fyrir ekki löngu síðan, ekki einu sinni 100 árum, vorum við Íslendingar rétt að stíga fyrstu skrefin við að beisla fallvötnin. Ég þekki svolítið til í Skaftafellssýslum þar sem lækir voru beislaðir við marga bæi og notaðir til þess vélarhlutir úr strönduðum skipum. Þar voru ansi færir menn og snjallir í að byggja þessar heimarafstöðvar.

Síðan eru liðnir áratugir. Við erum komin miklu lengra á þessu sviði. Ég vil spyrja hv. þingmann hver hann haldi að þróunin verði, t.d. ef við bara tölum um sæstrengi. Þetta er auðvitað mjög dýrt í dag. Tækninni fleygir mjög hratt fram. Verðið lækkar. Segjum sem svo, eins og ekki er ótrúlegt, að framfarirnar verði svo örar að innan örfárra ára verði þetta mun ódýrara og miklu auðveldara — hvernig sér hann þá framtíð fyrir sér, kannski innan fimm eða tíu ára, ef þetta myndi kannski að lækka um helming í verði og verða miklu ódýrara? Hvers lags framtíð gæti hann séð fyrir sér varðandi þá lagaumgjörð sem við erum hér að fjalla um?