149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir spurningarnar. Hann spyr um innleiðinguna í íslenskan rétt og fyrirvarann og samspilið, eða öllu heldur áreksturinn, sem hugsanlega getur orðið við Evrópuréttinn ef íslensk lög ganga í berhögg við þessar gerðir eða reglur Evrópusambandsins.

Ef það er enginn strengur reynir augljóslega ekki á mjög mörg atriði í regluverkinu. Að sjálfsögðu mundi ég halda það. En við erum þó opin og berskjölduð fyrir öllu mögulegu sem hugsanlega gæti komið upp, vegna þess að við erum búin að innleiða þetta. Jafnvel þótt við höfum einhvern fyrirvara, einhvern áskilnað um að Alþingi þurfi að samþykkja sæstrenginn o.s.frv., sem er reyndar í mörgum tilvikum, að það þurfi alls kyns samþykki fyrir alls konar framkvæmdum hér á landi, þannig að það er ekkert nýtt í sjálfu sér — en um leið og kemur upp einhver ágreiningur og eitthvert mál fer af stað einhvers staðar höfum við fordæmi.

Við höfum fordæmi frá þessu varðandi ófrosna kjötið. Um leið og árekstur verður og einhver sækir sinn rétt gagnvart íslenska ríkinu er auðvitað fyrst og fremst horft á hvort búið sé að innleiða þessar reglur. Og ef það er búið að innleiða þær, sem við erum að fara að gera núna og þess vegna erum við nú staddir hérna uppi í ræðustól Alþingis — þá verður ekki snúið til baka. Slíku máli er langlíklegast að við munum tapa.