149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:24]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna. Þetta er áhugaverð umræða. Ég hef fyrir framan mig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017, frá 5. maí 2017, og það er svolítið áhugavert að gefa gaum að orðalaginu sem notað er. 1. töluliður:

„Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.“

Þetta er sú reglugerð sem við þykjumst ekki ætla að innleiða. Þetta eru töluliðir sem eru tíu talsins og í átta þeirra er þetta orðalag notað, „fella ber inn“, þ.e. engin undanbrögð verða liðin þar. Við „skulum“ fella þessar gerðir inn.

Og eftir því sem maður kafar meira ofan í þetta virðist alveg morgunljóst að ef það er rétt sem ég hef fengið upplýsingar um frá utanríkisráðuneytinu, að fyrirvararnir séu settir gagnvart stjórnarskránni, þ.e. gagnvart okkur raunverulega, svo að við getum innleitt, til þess að við séum ekki að brjóta stjórnarskrána, þá liggur nokkuð ljóst fyrir að það er ekki gagnvart innleiðingunni sjálfri, þ.e. það stendur til að innleiða þessar reglugerðir að fullu.

Um ákvæði reglugerðarinnar stendur: „skulu“. Þetta er allt í boðhætti. Að því er samning þennan varðar og aðlögunina segir hér, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA skulu, án ótilhlýðilegrar tafar, samþykktar á grundvelli draga sem stofnunin“ — þ.e. ACER — „hefur samið að eigin frumkvæði eða að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA.“

Hvernig skilur hv. þingmaður þetta? Er það einhver valmöguleiki (Forseti hringir.) í huga þingmannsins hvort við getum eða getum ekki (Forseti hringir.) innleitt þessar reglugerðir eins og þær standa (Forseti hringir.) orðrétt?