149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir spurningarnar. Hann spyr um valmöguleika, hvort við höfum val um að innleiða þetta eða ekki. Já, ég held það. Ég held að við eigum bara enn þá rúma möguleika í þessu máli. Margir ræðumenn hér, bæði í dag og fyrir helgi, hafa bent á þennan valmöguleika, sem er bara í samningnum í sjálfum EES-samningnum, 102. gr., þar sem segir að ef einhver þjóð hafni innleiðingu sé hægt að senda ágreininginn eða athugasemdirnar aftur inn í sameiginlegu EES-nefndina þar sem við mundum skýra okkar mál út og það fengi umfjöllun þar, hugsanlega einmitt byggða á rökum sem stjórnarliðar hafa sjálfir fært fram, að hingað liggur engin sæstrengur. Einmitt með þeim rökum mundu Evrópuþjóðirnar og EFTA-þjóðirnar hugsanlega bara sætta sig við að við erum undanþegnir innleiðingu á alla vega reglugerð 713 og hugsanlega einhverjum fleirum ákvæðum sem við höfum mestar athugasemdir við.

Þetta er hinn eðlilegasti hlutur í heimi. Af hverju menn svona feimnir við að fara þessa leið? Menn segja: Hún hefur aldrei verið farin áður. Svo heyrði ég í einum stjórnarliða hér áðan í ræðu og hv. þingmaður var ansi galvaskur þegar hann sagði: Svo sannarlega munum við nota 102. gr. þegar þörf verður á. Það má vera galvaskur hérna uppi í ræðustól en þora svo ekki að beita sér þegar þörf er á.