149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Mig langar að velta aðeins upp spurningunni um hvort við séum að taka á okkur einhverjar frekari skyldur umfram þær sem við höfum í dag með því að innleiða þriðja orkupakkann. Ég held að svarið við því hljóti að vera jákvætt því að það er sama hvað þessi fyrirvari segir, við verðum stærri hluti af orkumarkaði Evrópusambandsins, hvort sem við tengjumst með rafstreng einhvern tímann eða ekki. Þessi innleiðing gerir það að verkum.

Síðan langar mig að nefna annað. Í því ferli sem skrifað er inn varðandi samskipti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og Evrópusambandsstofnunarinnar ACER er alveg ljóst að ACER skiptir miklu máli um þá niðurstöðu sem kann að nást. Eins og ég hef skilið þessar reglur er þessum tveimur aðilum í raun skylt að ná sameiginlegri niðurstöðu en í öllum tilvikum virðist sem ESA þurfi að taka við túlkunum og skipunum frá ACER.

En mig langar líka að koma inn á annað. Í máli mínu í dag hef ég fyrst og fremst lagt áherslu á það að ég hef áhyggjur af því að við séum smám saman að ganga lengra í að afsala okkur völdum eða áhrifum til Evrópusambandsins. Mig langar að nefna hér nokkuð sem ég kom lítillega inn á fyrr í dag, fyrirlestur sem var fluttur á Akureyri. Þar er maður sem heitir Max Baumgart sem er með langan lista af gráðum og störfum frá evrópskum háskólum. Hann veltir því upp að ef við gefum okkur að eingöngu sé hægt að ráðast í sæstreng með vilja og samþykki íslenska ríkisins megi færa fyrir því rök að ákvæði um frjáls vöruviðskipti í sáttmála Evrópusambandsins leggi þá skyldu á aðildarríkin að þau bæti flutningskerfi sín. Þetta byggi á því að frjáls viðskipti með raforku verði eingöngu tryggð með fullnægjandi flutningskerfi.

Það er því ekki loku fyrir það skotið að Íslandi verði hreinlega gert að tengjast þessum markaði samkvæmt vangaveltum þessa fræðimanns.

Það skiptir líka máli að hann segir að túlkun ákvæða sambandsins um aukinn samruna leggi skyldur af þessu tagi á aðildarríkin.

Mér finnst að við verðum að svara þeim spurningum endanlega, hvort það geti verið að það sem þessi ágæti fræðimaður heldur fram muni hafa áhrif hér á landi, að þau skilyrði kunni að skapast að við verðum einfaldlega að tengjast evrópskum orkumarkaði. Ef ekki þurfum við í það minnsta að fá það viðurkennt eða úr því skorið hvort sú niðurstaða sem ég hef dregið af þessu, að við séum að færa frekari völd frá okkur, geri það að verkum að það þurfi að staldra við og segja: Hingað og ekki lengra.

Þegar önnur orkutilskipunin er tekin upp innleiðum við ákveðnar skyldur og Ísland axlar þar með frekari skyldur. Þriðji orkupakkinn er í raun framhald af þeim skyldum. Spurningin er því: Mun þetta halda svona áfram? Og á hvaða tímapunkti erum við þá búin að segja: Hingað og ekki lengra? Á hvaða tímapunkti segjum við að við höfum gengið of langt? Það er vont ef sá tímapunktur kemur og verður til þess að setja hugsanlega þennan samning í uppnám. Það er engin ástæða til að gera það meðan við höfum úrræði eins og við höfum í dag, þ.e. að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og láta reyna endanlega á undanþágur.