149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé einmitt ágætt að velta því upp hvort við séum komin að einhverjum mörkum varðandi framsal valds. Ef ég man rétt, ég ætla að hafa smáfyrirvara á því, er það einmitt sú spurning sem íslenskir fræðimenn hafa velt upp, að þetta sem ég kalla salamí-aðferð geti ekki gengið endalaust, á endanum séum við búin að gefa það mikið vald frá okkur að við verðum að segja: Hingað og ekki lengra.

Ég held að það megi fullyrða að sá tímapunktur sé jafnvel núna uppi varðandi orkupakkann. Ég held að ef við tökum það skref sem við verðum að taka núna við innleiðingu þriðja orkupakkans verði mjög erfitt fyrir okkur að standa í vegi fyrir frekara framsali þegar kemur að orkupakka fjögur o.s.frv. Við sáum það við innleiðinguna á orkutilskipun númer tvö að þegar við innleiddum hana gerðum við það svo glæsilega að rök okkar halda ekki gagnvart Evrópusambandinu.