149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Í mínum huga er enginn vafi á að þeir sem í það minnsta halda nú á þessum málum munu ekki nýta sér 102. gr. samningsins varðandi orkumál þegar fram í sækir ef þeir gera það ekki núna. Það verður enn erfiðara að mínu viti að rökstyðja af hverju menn ættu að gera slíkt ef áfram er haldið á þessari braut. Það verður erfiðara að mínu viti að færa rök fyrir því að við eigum að fá einhverjar sérstakar undanþágur ef við eigum að standa fyrir utan þennan evrópska orkumarkað ef við tökum þetta skref sem við verðum að taka núna.

Ég sé það ekki gerast, það verður a.m.k. mjög erfitt að færa fyrir því rök. Við svo sem vitum ekki hverjir verða við stjórnvölinn þegar mögulega kemur að því en eins og staðan er í dag myndi ég segja að það væru hverfandi líkur á því að menn létu (Forseti hringir.) á það reyna.