149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það má í rauninni hafa skilning á því að Evrópusambandið sendi sínar tilkynningar eða gerðir í boðhætti, því markmiðið er að hafa sem mesta einsleitni og að allir sitji við sama borð og fylgi sömu reglum í raun.

Ég held hins vegar að það sé alveg ljóst að þegar búið er að innleiða eitthvað í okkar rétt verður ekki aftur snúið. Ég hef minnst á og held að ég fari með rétt mál að það sé í 7. gr. samningsins þar sem m.a. er talað um þessa einsleitni og að þeir sem innleiði gerðirnar þurfi að tryggja að eftir þeim sé farið með skýrum hætti. Þetta er spurning sem við höfum velt hér upp varðandi það hvort menn muni vilja beita 102. gr. síðar í ferlinu, þ.e. þegar orkupakki fjögur eða fimm eða eitthvað slíkt kemur. Ég svara því þessari spurningu nú eins og fyrr: Ég held að menn muni ekki gera það.