149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að auðvitað vonar maður að á einhverjum tímapunkti rísi þingmenn og/eða jafnvel einstaka þjóðir upp og segi: Hingað og ekki lengra, þegar kemur að því hvernig ráðskast er með nýtingu náttúruauðlinda, eða — hv. þingmaður nefndi Frakkland — einkavæðingu ríkisfyrirtækja. En markmið Evrópusambandsins eru alveg skýr í þeim stefnum sem við höfum séð, hvort það eru undirstofnanir eða sjálft æðsta ráðið í Brussel, það er að þróa orkumarkaðinn á þeirri forsendu að þetta sé vara og um vöruna eigi að gilda bara ákveðnar reglur eins og um hverja aðra vöru. Og það er svolítið sérstakt að sjá að Ísland og sú ríkisstjórn sem nú er, sérstaklega, skuli ekki hika við að taka þátt í frekari markaðsvæðingu á orkuauðlindunum.