149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við þekkjum það með EES-samninginn að því hefur nú verið marghaldið á lofti að hann sé ákveðinn grundvöllur að ýmsum lífsgæðum. Menn hafa miklar áhyggjur af því að það sé verið að stefna samningnum í hættu með því að fara þá lögformlegu leið að óska eftir undanþágu, sem er mjög mikilvæg fyrir okkur.

En það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um er: Er ekki skynsamlegt í stöðunni, ef við reynum að finna einhverja sáttaleið í þessu máli, bara að fresta því til næsta hausts til þess að kynna málið betur fyrir þjóðinni? Ég held að þjóðin átti sig ekki á málinu eða þekki það ekki nægilega vel. Það hefur ekki verið kynnt almennilega fyrir þjóðinni. (Forseti hringir.) Gæti það kannski verið lausn á þessu máli að reyna að fresta því fram á haustið?