149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir það með hv. þingmanni, að fara þessa lögformlegu leið, reyna að fá undanþágu sem skiptir okkur verulegu máli. Við höfum sterk rök, akkúrat, í þessu máli. Við erum ekki tengd hinum sameiginlega, samevrópska raforkumarkaði. Það eitt og sér hlýtur að teljast mjög sterk rök fyrir því að fá undanþágu.

Þess vegna er það svolítið sérstakt hvað stjórnvöld og stjórnarflokkarnir virðast vera óttaslegnir við að þetta fari allt saman í uppnám ef við förum þessa leið. Ég verð að segja eins og er, ef maður setur sig aðeins hinum megin við borðið, Evrópusambandsmegin, að þegar rökin eru svona sterk — við erum ekki aðilar að þessu — hljóta menn að sýna því skilning og skoða það. Og það (Forseti hringir.) á að láta reyna á þetta fyrir nefndinni.

En ég skil ekki, herra forseti, þennan ótta stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) í þeim efnum.