149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar komið er inn í dómsalinn hafi þetta takmarkaða þýðingu. Það er mitt mat. Við sáum það nú í þessu svokallaða ófrosna-kjötmáli að yfirlýsingar eða fyrirvarar sem við héldum að við hefðum skiptu þar í rauninni mjög litlu máli.

Nú telja íslenskir fræðimenn að niðurstaða EFTA-dómstólsins hafi e.t.v. verið hreinlega röng. Við getum lítið gert í því. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að þegar komið er út í málaferli gildir bara sá lagabókstafur sem er fyrir hendi. Það er sá lagabókstafur sem við erum að innleiða í dag. Við erum að innleiða þriðja orkupakkann eins og hann kemur fyrir og taka á okkur frekari skuldbindingar sem því fylgja. Ég held að það sé ekkert hægt að velkjast í vafa um það.