149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:08]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var afar skelegg eins og hans er von og vísa. Ég verð að taka undir það sem hv. þingmaður kom inn á, það er svolítið merkileg staða að í þingsal hafa níu þingmenn Miðflokksins mestmegnis talað gegn þessum orkupakka. Maður myndi upplifa það sem svo að þingflokkur sem var með tæplega 11% kjörfylgi ætti sér ekki marga fylgismenn að máli úti í þjóðfélaginu en upplifunin er allt önnur.

Ég tek undir það, ég hitti fólk úr öllum flokkum sem ég er yfirleitt ósammála í stjórnmálaskoðunum og svörin eru á eina leið. Fólkið talar um svik við stefnu flokksins, svik við gefin loforð. Það er kannski ekki að ástæðulausu vegna þess að hér á þessum vettvangi, þ.e. í sölum Alþingis, sem og annars staðar, hafa þessir flokkar, þ.e. stjórnarflokkarnir, gefið það ítrekað út að þeir muni ekki stíga þau skref sem lagt er til að stigin séu hér. Ég verð að segja að öll framganga stjórnarliða í þessu máli ber vott um rakaþurrð. Þingmenn hafa ekki keppst við að koma í ræðustól og fylgja málinu eftir með rökum eða svara spurningum eða efasemdum sem hér eru settar fram.

Mig langar til að varpa spurningu til hv. þingmanns, sem hefur nú allnokkra reynslu af þingstörfum: Er það alvanalegt, þegar keyra á mál í gegn með góðu eða illu, að það sé gert á þennan hátt, tekin skemmri skírn á umræðuna og svo sé það ekki einnar messu virði eftir það að fylgja málinu eftir heldur sé áfram böðlast í trausti þess að málið verði samþykkt með þvinguðum meiri hluta?