149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég væri í sjálfu sér alls ekkert hissa á því að fólk sem hefur treyst þessum flokkum fyrir atkvæði sínu sé tortryggið, eða kannski frekar skilningsvana gagnvart því hvers vegna svona mikið liggur á. Ég segi fyrir sjálfan mig sem þingmann á Alþingi: Ég skildi heldur ekki hvað lá svo mikið á að koma þessu máli út úr utanríkismálanefnd, að þar skyldi ekki vera hægt að taka inn fleiri gesti og að menn skyldu í raun og veru, eins og gert hefur verið, að því er virðist, handvelja þá gesti sem komu fyrir nefndina til að fá þóknanlega niðurstöðu eða fá fram einhverjar skoðanir sem eru þóknanlegar meiri hluta nefndarinnar.

Vinnubrögð eins og þessi — það er mjög skiljanlegt að fólk sem treyst hefur þessum flokkum fyrir atkvæði sínu, og sumt af því fólki sem ég hef hitt úr öllum þessum flokkum hefur ekki bara gert það síðan í gær heldur í áratugi, þekki ekki flokkana sína, þekki ekki þessa afstöðu. Það þekkir ekki að menn hlaupi svona gjörsamlega frá stefnu sem þeir hafa haft áður. Það virðist vera nýjung. Ég að vísu veit ekki alveg um kjósendur Framsóknarflokksins sem eru ýmsu vanir. Þar hafa menn hlaupið svolítið í hringi eins og þekkt er. En Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn?

Ég segi aftur: Ég hef heyrt ræður hér frá þingmönnum Vinstri grænna sem ég hefði varla búist við að heyra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. En að ég myndi lifa það að heyra þingmenn Vinstri grænna tala fyrir styrkingu við Evrópu eins og Kanadaagentar gerðu í Vopnafirði hér á 19. öldinni — ég hefði ekki trúað fyrir fram að ég myndi upplifa það.