149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:36]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir ræðuna. Það er áhugaverð grein sem þarna er vitnað í. Hún er skrifuð með það að leiðarljósi að horfa 20 ár fram í tímann, sem er ekki svo langur tími, því einungis fyrir 20 árum síðan vorum við að innleiða fyrsta orkupakkann og ýmislegt hefur gerst síðan þá.

Hér hafa orðið stórstígar tækniframfarir, eins og hefur verið rætt hér áður, og ekkert sem mælir á móti því að við veltum því frekar fyrir okkur hvað framtíðin beri í skauti sér. Ég er þeirrar skoðunar að ansi margt sem við Íslendingar höfum gert og gerum— og er svolítið í þjóðarsálinni — feli í sér að tjaldað sé til einnar nætur. Það getur átt sér skýringar í því hvar við búum, á þessari harðbýlu eyju. Við öflum heyja þegar það er þurrkur og við förum í aðgerð og komum fiski í hús þegar hefur gefið á sjó.

En það sem skiptir miklu máli hér er akkúrat að sjá fyrir sér: Og hvað svo? Það er alveg rétt að stór hluti þjóðarinnar, að því er manni virðist, veltir þessu fyrir sér. Hver er áætlunin héðan í frá? Ætla menn að telja sér trú um, og þjóðinni líka, að eftir þetta skref, eftir að við erum búin að skilgreina okkur sem hluta af innri orkumarkaði Evrópusambandsins, getum við spyrnt við fótum, rifið í neyðarhemil eða notað silfurkúluna? Hvert er álit þingmannsins á því?