149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:41]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir svarið. Varðandi framtíðarskipan mála og vangaveltur um hvað geti orðið þá höfum við líka lesið pistla, m.a. var ég hér með skýrslu fyrir framan mig í minni síðustu ræðu þar sem búið var að greina áhrif innleiðingar þriðja orkupakkans á Noreg og síðan framhaldið, þ.e. hvað myndi gerast með tilkomu þess fjórða. Þar er m.a. vikið að því að með innleiðingu fjórða og síðan fimmta orkupakkans, sem þó er ekki fullsmíðaður, muni orka, sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, raunverulega geta streymt til Noregs, þ.e. orka getur streymt í báðar áttir. Hún verði á sama verði á öllu svæðinu, en það verður þá gert til að tryggja raforkuöryggi vegna þess að leiddar eru að því líkur að miðlunarlón Noregs geti tæmst á einhverjum tímapunkti, þ.e. við erum háð þessari orku á þann hátt að veður skiptir máli. Hin endurnýjanlega orka er háð þessu, þ.e. vindi og regni eða úrkomu, hún sé á formi snævar að einhverju leyti.

Við búum síðan við það hér á Íslandi að við eigum orkuauðlind sem er jarðvarmi, sem er hins vegar ekki að finna í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Maður getur spurt sig að því hvort með fimmta orkupakka, eða fjórða eftir að innleiðing fjórða orkupakka hefur átt sér stað, fylgi þá næst að nýting jarðvarmans sé líka eitthvað sem þurfi að selja frá okkur og nýta til raunverulegra hagsbóta fyrir Evrópu en ekki Íslendinga. (Forseti hringir.) Mig langar til að fá aðeins sjónarmið þingmannsins á því hvort hann telji að hér (Forseti hringir.) verði numið staðar og verði eingöngu sú orka sem hér um ræðir, (Forseti hringir.) eins og við þekkjum hana í dag, eða hvort það (Forseti hringir.) verði sú gríðarlega orka sem leynist í jörðu, jafnvel notuð.

(Forseti (BHar): Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutímann.)