149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mikið vill meira. Ég held að kannski sé hægt að nálgast svarið við þessari spurningu þannig. Það má segja að við séum ómeðvitað í einhvers lags æfingabúðum þessi misserin og þessi árin með hinum svokölluðu aflátsbréfum sem svo eru kölluð, þar sem raforkuframleiðendur skiptast á upprunavottorðum. Íslenskir raforkuframleiðendur selja erlendum raforkuframleiðendum upprunavottorð, sem kölluð eru, fyrir hreina orku, og þannig getur erlendi raforkuframleiðandinn selt sínum kúnnum orku á þeim forsendum að hann sé að hluta til að selja þeim endurnýjanlega orku, þótt engin endurnýjanleg orka sé hluti af framleiðsluplatformi hans.

Ég hef litið á þetta sem einhvers lags aðlögunarbúðir sem íslenska kerfið er í. Menn sjá það, þegar þeir skoða rafmagnsreikningana, að við erum með eitthvert hlutfall kola, kjarnorku og ég veit ekki hvað á orkureikningunum okkar. Það er ekkert í háttalagi Evrópusambandsins sem bendir til þess að fýsilegt sé fyrir þá að láta staðar numið, hvað stjórn á orkumarkaðsmálum varðar, að láta staðar numið eins og staðan er núna. Mann grunar að einhver viðbótarglaðningur leynist í fjórða og fimmta pakkanum sem við þekkjum ekki hver verður í dag, hann verður örugglega einhver.