149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa ræðu. Greinin sem hann las upp úr var frekar dökkleit en ræðan var mjög vekjandi, sem skiptir máli á þessum tíma dags. Ég get ekki leynt því að á meðan hv. þingmaður hélt þessa ræðu, og las upp úr greininni sem hann lagði til grundvallar í ræðunni, varð mér hugsað til umræðunnar í upphafi þingfundar í dag um möguleika íslenskrar garðyrkju. Ég gat ekki heyrt betur en allir hv. þingmenn og ráðherrann væru klár í að reyna að gera garðyrkjunni til góða þannig að hún geti eflt framleiðslu sína og aukið úrvalið og við getum hætt að flytja inn jafn mikið og við gerum í dag og minnkað kolefnissporið okkar og ég veit ekki hvað. En á sama tíma er þetta sama fólk að leggja til breytingu í orkumálum sem mun, að mati garðyrkjubænda, slátra þeim vegna hækkunar á gjaldskrá. Samtök grænmetisbænda, eins og ég gat um í ræðu minni fyrr í kvöld, hafa einmitt varað mjög sterklega við því að þetta skref verði stigið.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður getur hjálpað mér: Hvernig eigum við að skilja þetta tvennt? Hvernig eigum við að geta samræmt það? Er þetta svona hrikalegur tvískinnungur? Eða eru menn bara svona barnalega hugsandi að þeir halda að þeir geti innleitt þennan orkupakka, haldið óbreyttu rafmagnsverði, ráðstafað orku, og jafnvel umframorku eða hvaða orku sem er, í eflingu garðyrkju á Íslandi, sem er náttúrlega mjög mikilvægt mál? Halda menn virkilega (Forseti hringir.) að þetta sé allt saman hægt og að hægt sé að samræma þetta allt? Hvað hefur hv. þingmaður að segja um þetta?