149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er von að spurt sé. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Það er eins og tveir ósamrýmanlegir heimar rekist á þegar hlustað er á ræður þingmanna sem töluðu í sérstakri umræðu fyrr í dag í tengslum við framtíðartækifæri í garðyrkju og síðan þegar hlustað er á sjónarmið þess sama fólks í tengslum við þriðja orkupakkann. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd. Það er eitthvert rof þarna á milli. Sennilega er bara reiknað með því að garðyrkjubændur landsins séu uppteknir í vinnunni utan þess tíma sem þeir fylgjast með umræðum um framtíðartækifæri garðyrkjunnar. En auðvitað er það ekki þannig.

Þetta er væntanlega hluti af því vantrausti sem hér er uppi, að þingmenn segja eitt í umræðu um framtíðartækifæri í garðyrkjunni en síðan eitthvað allt annað í umræðu um þriðja orkupakkann. Og auðvitað átta menn sig á því að þarna rekst hvað á annars horn. Þetta leggur í púkkið hvað það vantraust varðar sem umlykur alla þessa umræðu og framsetningu stuðningsmanna þriðja orkupakkans, þegar menn tala með svona algerlega ósamrýmanlegum hætti við það sem í honum kemur fram, og það á einum og sama deginum. Það sjá allir sem fylgjast með umræðunni að þetta tvennt getur ekki farið saman með þeim hætti sem stuðningsmenn þriðja orkupakkans vilja meina. Það þarf ekki nema svona skynsemisskoðun til að komast að þeirri niðurstöðu.