149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er kannski það sem maður rekur sig svolítið á í þessari umræðu, þ.e. að stuðningsmenn þess skrefs sem nú er stigið hafa ekki, alla vega ekki í eyru þess sem hér stendur, útskýrt að fullu hvaða áhrif samþykkt þessa pakka hefur á kjör fólks í landinu, hvort sem það eru garðyrkjubændur, félagsmenn í ASÍ — en bæði félögin eru á móti þessum frumvörpum og þingsályktunartillögum — eða Landssamband bakarameistara.

Í sjálfu sér verð ég að viðurkenna að ég sakna þess örlítið að fulltrúar þessara hópa, þ.e. ASÍ, Bændasamtakanna, bakarasamtakanna, mæti hreinlega hér fyrir utan húsið og sýni í verki vilja sinn til að þetta verði ekki gert. Ég held að bakarar séu að mæta til vinnu akkúrat núna þannig að það er ágætt að stinga því inn hjá þeim að það væri einnar messu virði að þeir mæti hér fyrir utan þetta hús og reyni að hafa með sér fleiri til að sýna stjórnarflokkunum fram á hvaða alvara fylgi þessu skrefi. Menn vita í þessum geira og í þessum geirum hvað þetta skref mun kosta þá. Þá hljóta menn að þurfa að sýna þeim sem vilja áfjáðir stíga þetta skref hvað það raunverulega þýðir fyrir afkomu þessara hópa.

Mig langar í sjálfu sér að fá kannski smáinnpútt, ef ég má segja það, frú forseti, á þessar hugleiðingar mínar.