149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að koma ekki strax til leiks. En ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu. Hún vakti með mér aðrar spurningar um hluti sem nú á að fara að hrinda í framkvæmd en maður sér ekki hvernig eigi að virka undir þessum nýju kringumstæðum. Og hér er ég að tala um svokölluð orkuskipti. Nú er verið að segja við almenning í landinu: Eftir árið 2030 verða engir bensín- eða dísilbílar fluttir inn til Íslands. Það verða eingöngu fluttir inn rafmagnsbílar. Þá verður maður að spyrja sjálfan sig: Hvernig á þessi stefna að samrýmast því að á sama tíma eru menn að leggja orkumarkaðinn á Íslandi í þá tvísýnu sem þriðji orkupakkinn er?

Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður sagði hér áðan, að markaðsvæðing raforkunnar yfir höfuð hefur ekki reynst okkur Íslendingum vel, hvorki orkupakki eitt, sérdeilis ekki orkupakki tvö, þar sem við vorum að skipta upp þessum fyrirtækjum og gerðum það með miklu röggsamari hætti en við nokkurn tíma þurftum. Allt þetta hneigir mann að því að spyrja: Hvernig á almenningur í landinu að geta treyst því að orkuskipti t.d. eigi eftir að ganga eftir af þeim krafti eða á þann veg sem stjórnvöld lofa ef innleiða á þennan orkupakka sem mun hækka raforkuverð til neytenda verulega? Það bendir allt til þess. Hvernig samræmist þetta, hv. þingmaður?