149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er náttúrlega alveg makalaus hræðsluáróður af hálfu stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar og flokkanna sem styðja þessa innleiðingu, Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata, að halda því fram að samningur sem er á milli tveggja aðila, hefur verið í gildi í 25 ár, sé í uppnámi ef við nýtum okkur lagalegan rétt okkar til að fara með málið fyrir sameiginlega nefnd sem finnur lausn á ágreiningnum. Þetta er röksemdafærsla sem á ekki að eiga sér stað. Við höfum aldrei nýtt okkur þennan rétt. Núna er mikið undir og það er ekkert að því, ef maður horfir bara til alþjóðasamskipta, að ríki nýti sér rétt með þessum hætti. Ég segi nú að ef hræðsluáróðurinn kemur einhvers staðar frá þá kemur hann frá stjórnvöldum. Hann kemur ekki frá okkur Miðflokksmönnum sem (Forseti hringir.) erum að reyna að sýna fram (Forseti hringir.) á að það er engin hætta fólgin í því að fara þessa lögformlegu leið.