149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það sem félagi minn hv. þm. Bergþór Ólason sagði áðan. Auðvitað er rétt fyrir okkur, nú þegar er farið að morgna af degi, að grennslast eftir því hvernig og hversu lengi forseti hefur hugsað sér að þessi fundur standi. Því að líkt og hv. þm. Bergþór Ólason sagði var hér í gangi samkomulag eða vilji um að halda fundi áfram til eitt, tvö í nótt. Við Miðflokksmenn höfum ekkert verið að kvarta yfir því að nokkur tími sé liðinn fram yfir það vegna þess að umræðan er búin að vera mjög upplýsandi. Það má kannski segja að hún sé kannski loksins að ná einhverju flugi núna og að við séum farnir að nálgast kjarna málsins. En engu að síður, bara fyrir góðra hluta sakir væri gott að heyra það frá hæstv. forseta hversu lengi hann vill halda þessum fundi hér áfram inn í morguninn.