149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég get varla orða bundist. Hér stöndum við á hinu háa Alþingi og virðist skipulag vera mjög endasleppt. Við upplifðum það aðfaranótt föstudags í síðustu viku — eða fimmtudags, ég man nú ekki hvort það var, klukkan er orðin margt — að þá var gert samkomulag sem hélt ekki. Í dag var beðið um það sérstaklega undir liðnum um afbrigði að heimilað yrði að taka mál á dagskrá sem skömmu seinna var tekið af dagskrá. Hér liggur fyrir að gert var samkomulag um að fundur stæði til klukkan eitt eða kannski tvö í nótt. (Gripið fram í: Rangt.) Nú er klukkan að verða hálffjögur. (Gripið fram í: Fundarstjórn forseta.)(Gripið fram í: Rangt.)(Gripið fram í: Það var ekki gert samkomulag um það.)(Gripið fram í: … samkomulag um að halda lengur áfram.) Ég leiðrétti það þá ef það er svo. En alla vega stöndum við hér klukkan hálffjögur að nóttu og ræðum enn um orkupakka þrjú.