149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Svo vill til að sá sem hér talar nú stýrði fundi með formönnum þingflokka fyrir hádegi í morgun og tók þar afar skýrt til orða um að hann hefði fullan hug á því að ljúka dagskrá þessa fundar sem fyrir liggur í dag, í öllu falli því máli sem nú hefur verið rætt alllengi. Þau áform fóru ekki fram hjá neinum sem sat þann fund og það átti ekki að vera neinn misskilningur um það. Nú hefur komið í ljós að hv. þingmenn hafa mikla þörf fyrir að tjá sig og annríki fer vaxandi á þinginu og ekki mjög margir þingdagar eftir. Þá er að sjálfsögðu eðlilegt að bregðast við þeirri þörf þingmanna með því að lengja þingfund. Ég geng út frá því að hv. þingmenn Miðflokksins, sem hafa mikla þörf fyrir að ræða þetta mál, og ræða saman um það og fara í andsvör við sig sjálfa, fagni því að búið sé til rými fyrir þá til að flytja ræður sínar. (BergÓ: Við vorum ekki að biðjast undan því.) Þar með er þetta allt í góðu lagi og okkur ekki mikið að vanbúnaði að nýta bjarta vornóttina til að eiga þessar uppbyggilegu samræður.