149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:47]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Hér hefur verið rætt um það oft og ítrekað að þeir sem eru andvígir málinu séu afturhaldssinnar, einangrunarsinnar, popúlistar og ég veit ekki hvað og hvað. Ætli menn myndu vilja hafa þau sömu orð uppi um Jón heitinn Sigurðsson forseta sem barðist hvað harðast fyrir sjálfstæði landsins og sjálfstæði þjóðarinnar? Hér hefur þeim rökum verið haldið á lofti að við notum fullveldið sem við höfum til að gera samninga við önnur ríki og þjóðlönd. Það er vissulega rétt, við notum það, en við afsölum okkur því ef við afhendum það til yfirþjóðlegra stofnana.

Það er rétt að þetta er gert ekki aðeins í ágreiningi við þá sem hafa staðið hér og mælt á móti þingsályktunartillögunni heldur einnig við þjóðina. Maður spyr sig: Hvaða hagsmunir eru ríkari? Þeir gætu verið fjárhagslegs eðlis fyrir einhverja tiltekna aðila.

Eitt sem mér hefur flogið í hug er að þetta sé gert með þessum hætti vegna þess að með því að keyra málið í gegn í formi þingsályktunartillögu þá er útséð með að annar handhafi löggjafarvaldsins, forseti Íslands, hafi aðkomu að málinu. Hann getur ekki eins og hann gæti ef um lög væri að ræða, frumvarp til laga, lagt málið í dóm þjóðarinnar. Það má vera að það sé nægjanleg ástæða fyrir því að þetta er keyrt svo hart fram á þennan hátt og í formi þingsályktunartillögu.