149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þarna erum við einmitt komin að því sem hefur verið rætt hér oft og tíðum, trausti almennings gagnvart stjórnmálamönnum og Alþingi. Lögð er áhersla á það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að efla Alþingi og þá hefði maður talið að það fælist í því að fram færi vönduð umræða um stór og mikilvæg mál. Þetta er eitt af þeim málum sem telst ansi stórt og mikið og varðar hagsmuni þjóðarinnar til framtíðar en það á að keyra í gegn í skjóli nætur.

Margar spurningar hafa vaknað. Almenningur hefur mikinn áhuga á því að fá svör við ákveðnum spurningum en ekki komið þeim að og því haft samband við þingmenn í þeirri von að þeir geti komið spurningunum á framfæri. Hér er enginn til að svara þeim spurningum af hálfu stjórnarliðsins, eins og hv. þingmaður nefndi. Fjarvera hæstv. utanríkisráðherra er alveg hrópandi í umræðunni. Sömuleiðis hefur hæstv. forsætisráðherra lítið tjáð sig um málið. Ég get því ekki séð að verið sé að efla traust almennings gagnvart Alþingi og bera stjórnarflokkarnir alla ábyrgð í þeim efnum. Auðvitað vekur þetta mann til umhugsunar um það hvers vegna verið er að keyra málið svona áfram. Eru einhverjir hagsmunir þarna á bak við sem við höfum ekki fengið að vita af? Talað er um að EES-samningurinn sé í hættu, sem ég hef margoft bent á að er (Forseti hringir.) algerlega úr lausu lofti gripið.