149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Það hefur komið fram í umræðunni fyrr í kvöld og í nótt, t.d. í ræðu sem ég flutti hér áðan, að ég teldi að í sjálfu sér væri það ekki traustur málflutningur að vera með umræðu um sérstakt átak í grænmetisrækt á Íslandi og vera með áætlanir um stórkostleg orkuskipti í samgöngum en ætla síðan að markaðsvæða raforku og raforkuverðið til þeirra sem nú eru hvattir til að skipta um ökutæki og taka inn rafmagn í staðinn fyrir bensín/dísil. Það heitir að lofa upp í ermina á sér að halda því fram að menn séu áfjáðir í að veita grænmetisbændum tækifæri til að keppa við innflutt grænmeti á sama tíma og það liggur nánast fyrir að sú gjörð sem við ræðum hér mun hækka orkuverð til þessara aðila tveggja. Ég sé ekki að þetta samræmist.

Við höfum séð undanfarið að menn hafa áhuga á bæði smávirkjunum og vindmyllurekstri. Ég sé heldur ekki að sá rekstur geti þrifist á því orkuverði sem nú er ráðandi á Íslandi. Því hlýtur maður að spyrja sig: Ætla þessir aðilar og ætlar ríkisvaldið og ríkisstjórnin að hleypa því út í verðlagið? Á að hækka raforku til grænmetisbænda, til orkuskipta o.s.frv.? Eða sjá menn fyrir sér möguleika á því að selja þessa raforku á eitthvert annað svæði þar sem verð er hærra?