149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, við getum í sjálfu sér dregið þetta saman í það að reynsla okkar hingað til af innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans var mjög slæm fyrir neytendur. Menn hafa haldið því fram að raforkukostnaður heimila hafi lækkað í kjölfarið á því að fyrirtækjum var skipt upp o.s.frv. Ég veit ekki um neinn sem ég hef heyrt í eða hitt sem hefur orðið fyrir því. Og menn sögðu: Jú, raforkan sjálf lækkaði en flutningurinn hækkaði. Það breytti ekki því að rafmagnsreikningur heimilanna hækkaði.

Hér situr fyrir aftan mig hæstv. forseti Alþingis og þáverandi hv. þingmaður, sem ég þykist vita að hafi verið andstæðingur þessara tveggja fyrri orkupakka. Það verður náttúrlega að segjast í ljósi tímans og þess sem liðið er, að hann og félagar hans höfðu rétt fyrir sér í þessu efni. Einmitt kannski þess vegna gera mann enn þá meira hissa í framan þessi sinnaskipti þeirra gagnvart þriðja orkupakkanum, sem mjög margt bendir til að muni hafa enn þá meiri áhrif hvað þetta varðar en hinir tveir.

En ég tek undir með hv. þingmanni. Ég er alveg sannfærður um að þessi aðferð Evrópusambandsins og þingsins hér, að gefa þjóðinni þetta inn í teskeiðum, orkupakka eitt og tvö, þrjú núna, fjögur og fimm á næstu tíu árum, verði til þess að alltaf muni herðast að landi og þjóð með hverjum pakkanum sem við innleiðum. Þannig að jú, reynslan er slæm. Lærum af henni.