149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, hv. þingmaður hefur aldeilis lög að mæla, vegna þess að líkt og fram kom í fyrra svari mínu er þessi reynsla er virkilega slæm. Við eigum að læra af þessu. Ég hefði talið að það myndi ekki skaða nokkurn, ekki málið, ekki ríkisstjórnarflokkana, ekki þjóðina, að taka nú betri tíma í að afgreiða þetta mál, annars vegar með því að fresta því fram á haust, ná um það breiðari samstöðu skuli stefna, og/eða að gera þær breytingar á málinu að það verði sent til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eins og réttur okkar er, fullkominn réttur. Það kann vel að vera, eins og þeir sérfræðingar sem leitað hefur verið til í þessu máli hafa sagt, að hér yrði uppi einhver pólitísk óvissa.

Ég segi þá aftur, eins og ég sagði í ræðu minni í kvöld, að það er það sem við erum að vinna við alla daga. Okkur er engin vorkunn að takast á við pólitíska óvissu að einhverju leyti í þessari umræðu.

Það er hins vegar annað atriði í þessu máli sem olli mér heilabrotum í gær að fyrir um 12 tímum síðan var hér í þingsalnum liðurinn sem er kallaður óundirbúnar fyrirspurnir. En þær virtust vera nokkuð vel undirbúnar í gær, vegna þess að fulltrúar þriggja flokka sem sækja þetta mál mjög fast reyndu að fá hæstv. forsætisráðherra til fylgilags við sig til að útmála þá sem eru á móti þessum pakka sem annars flokks fólk. Ég verð að segja það (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra til hróss að auðvitað tók hún ekki undir þennan málflutning, en í sjálfu sér átti hún lítil svör við spurningum (Forseti hringir.) sem til hennar var beint.