149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að vegir Pírata séu órannsakanlegir og hvernig þeir forma afstöðu sína. Ég hef ekki áttað mig á því út frá þeim ræðum sem fulltrúar Pírata hafa haldið. En það sem mér þykir kannski erfiðast við að eiga þegar ég hlusta á þá færa sitt mál fram er þessi ofboðslega sannfæring þingmanna Pírata fyrir því að þeir skilji málin rétt og aðrir skilji málin rangt, séu þeir ósammála þeim Pírata sem talar hverju sinni. Ég hef ekki orðið var við jafn mikla sannfæringu fyrir eigin ágæti og í þessum hópi, þingflokki Pírata, um langa hríð.

Ég get sagt fyrir mitt leyti að það er mjög margt í þessu máli öllu sem ég vildi gjarnan fá betri útskýringar og betri útlistun á. Það eru ótal margar spurningar sem voru settar fram undir lok nefndarstarfsins sem fékkst ekki svarað. Það var beðið um gesti sem ekki voru kallaðir fyrir utanríkismálanefnd. Við þingmenn Miðflokksins höfum spurt ótal spurninga þær klukkustundir sem við höfum staðið hér í umræðunni. Þótt við séum sannfærðir um að það ætti ekki að flýta sér að klára þetta mál, þá get ég ekki hermt þessa gríðarlega sannfæring fyrir eigin greiningargetu. (Forseti hringir.) upp á neinn annan hér í húsi. Hvernig Píratar finna út úr þessu (Forseti hringir.) gagnvart sæstreng treysti ég mér ekki til að giska á.