149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Maður veltir því fyrir sér í þessu máli: Hver er hagur okkar Íslendinga? Hver er hagur neytenda? Hver er hagur almennings? Þar hefur verið rætt sérstaklega um neytendavernd. Hér hafa þingmenn komið upp í pontu og sagt að þetta sé svo mikilvægt vegna neytendaverndar, menn gætu farið að kaupa raforku frá fleiri en einum raforkusala. En nú er það bara staðreynd, og hv. þingmaður nefndi það hér fyrr í kvöld, að það er best að reyna hlutina sjálfur og þekkja þá á eigin skinni. Sá sem hér stendur hefur einmitt reynt þessa hluti og á eigin skinni, eins og sagt er. Þar sem ég hita mitt húsnæði með rafmagni hef ég leitast við að reyna að fá raforkuna ódýrari vegna þess að það er dýrt að kynda með rafmagni og hækkaði verulega við innleiðingu orkupakka eitt.

En staðreyndin er sú og sannleikurinn er sá að það er sáralítill munur í verði milli þessara orkufyrirtækja, þannig að það borgar sig ekki og hefur ekkert upp á sig að vera að reyna að skipta um orkusala. Þetta er bara staðreynd sem rétt er að halda á lofti og sérstaklega gagnvart þeim þingmönnum sem hafa blásið þetta út sem svo mikla neytendavernd.

En það er alveg ljóst að það er vilji Evrópusambandsins að þetta gangi í gegn og embættismannanna. Þeir eru búnir að vinna svo mikið í málinu og það er komið svo langt á veg o.s.frv. Og síðan er hræðsluáróður um að það skemmi fyrir Norðmönnum ef við innleiðum þetta ekki. En ég minni á að þeir hafa ekki verið neitt sérlega hliðhollir okkur þegar kemur að því að semja um fiskveiðistofna.

En mig langar að fá álit hv. þingmanns einmitt á þessu með neytendaverndina, hvort þetta sé ekki algerlega orðum aukið.