149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að menn hafi ekki gert sér grein fyrir þessu, að raforkumarkaðurinn á Íslandi er það smár í samanburði við sameiginlega markaðinn í Evrópu að hin svokallaða neytendavernd skiptir engu máli. Hún hefur í raun farið á verri veg. Við höfðum jú sérstaka samninga til að lækka húshitunarkostnað til fyrirtækja sem kaupa raforku að næturlagi o.s.frv., sem fól í sér ódýrari raforku en það var hins vegar bannað með innleiðingu orkupakka eitt. Þar með get ég ekki annað séð en neytendaverndin hafi bara versnað. Það er nákvæmlega það sem við horfumst í augu við með þennan orkupakka þrjú, að raforkan komi til með að hækka.