149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem hann flutti. Mér þótti einkar áhugavert það sem hann talaði um í sambandi við pólitíkina í þessu máli. Það kemur engum á óvart að sérstaklega þeir tveir flokkar sem ásælast mjög að komast í Evrópusambandið skuli vera til í allt í þessu máli. Það kemur manni ekki á óvart. Hins vegar hafa komið manni mjög á óvart vendingarnar í bæði Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum.

Píratar eru náttúrlega í þeirri sérstöðu að hafa óþol fyrir skoðunum annarra og telja sig hafa hinn eina, hreina tón. Það sem kemur kannski á óvart varðandi Pírata er að þeir sækja, að sagt er, mest fylgi til ungs fólks, en það er jú unga fólkið okkar sem kemur til með að borga þann brúsa sem verið er að innleiða hér.

Framsóknarflokkurinn dinglar með að vanda og hefur, eins og ég sagði áðan, snúist í þessu máli eins og hundur sem eltir skottið á sjálfum sér, hefur að vísu staðnæmst nú um stundarsakir. En ég ætla nú að bíða og sjá málið fara til enda áður en ég trúi því, svona eins og Halli og Laddi sögðu hér um árið, með leyfi forseta: „Mér þætti gaman að sjá það.“

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þetta: Hvað telur hann að reki t.d. flokk eins og Pírata, sem á jú að hafa fylgi yngra fólks, út í það að vilja hengja þennan myllustein um háls kjósenda sinna til lengri tíma litið? Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í það.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann, af því að ég veit að hann var hagvanur í Sjálfstæðisflokknum, hvað hann telji hafa orðið til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur snúið svona gjörsamlega við blaðinu og gengið fram af (Forseti hringir.) því sem við köllum stundum góðlátlega, gamla íhaldinu?