149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, ég þakka þér fyrir andsvarið. Nú gæti hæstv. forseti eflaust svarað þessari spurningu betur en ég, en ég ætla að reyna. Ég greini þetta þannig að margir líta svo á að Vinstri grænir séu í eðli sínu stjórnarandstöðuflokkur. Það hefur komið mörgum á óvart, fyrst í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2009–2013 og síðan í núverandi ríkisstjórn, hversu tilbúinn þingflokkur Vinstri grænna er til að víkja frá fyrri stefnu, væntanlega til að halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi. Það er auðvitað bara virðingarvert eins langt og það nær, það er hluti af því að vera í samstarfi. En mér er til efs að baklandið, grasrótin, eins og ég held að það sé kallað í Vinstri grænum, verði bærilega sátt þegar upp verður staðið hvað þetta mál varðar.