149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessu máli er nauðsynlegt að skoða þróunina í nágrannalöndunum. Þá má t.d. nefna að í Danmörku eru vogunarsjóðir farnir að kaupa upp dreifikerfi raforku sem hafa verið í eigu almennings í 100 ár. Í Noregi, sem er land sem framleiðir miklu meira en nóg af raforku, er hafin mjög mikil uppbygging vindmyllugarða í náttúruperlum sem er kostuð af þýskum fjárfestum. Ef við skoðum Svíþjóð sérstaklega, sem er mjög fróðlegt að gera, þá gekk sænska raforkukerfið mjög vel og var hagkvæmt og öruggt þegar Svíar gengu í Evrópusambandið á sínum tíma. En nú eftir meira en tveggja áratugaflóð, ef svo má að orði komast, af EES-tilskipunum hefur orkukerfinu þar í landi hrakað mikið.

Sagt var í upphafi að regluverk Evrópusambandsins myndi auka samkeppni og afköst og gera rafmagnið ódýrara og auka valkosti kaupenda. Vissulega hafa valkostir neytenda aukist þar í landi en afleiðingarnar eru hins vegar slæmar. Orkuverð til notenda hefur hækkað mikið á sama tíma og eigendur hinna einkavæddu orkufyrirtækja taka út milljarðagróða úr þessum fyrirtækjum.

Ef við skoðum Svíþjóð nánar í þessu sama samhengi — vegna þess að það er nauðsynlegt að skoða nágrannalöndin og hver reynsla þeirra hefur verið af því að vera í þessu samkeppnisumhverfi Evrópusambandsins, sem það leggur svo ríka áherslu á — þá hefur viðhald sænska raforkukerfisins versnað verulega. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni þegar um raforku er að ræða, vegna þess að það fylgir því mikil hætta ef viðhald er ekki gott á þessum kerfum. Síðan minnkaði atvinnuöryggi starfsmanna og álag á starfsmenn hefur aukist verulega. Ríkisvaldið sá um, áður en þetta var einkavætt, að kerfið væri öruggt, en þegar fyrirtækin eru klofin þarna í sundur og farin að taka þátt í þessu samkeppnisumhverfi verður það allt óhagkvæmara.

Þetta er ekkert einstakt, herra forseti. Sams konar Evrópusambandstilskipanir hafa farið illa með járnbrautir, póstinn og símann og gasfyrirtækin og flugið. Það er almennt þannig að einkavæðing með þessum hætti, svona samfélagslegra mikilvægra eininga, hefur í för með sér að viðhaldi verður ábótavant. Vegna kröfu einkafyrirtækjanna um aukna arðsemi eiga menn að finna leiðir til að spara, og það bitnar á viðhaldinu. Ég held einmitt að sú verði raunin hér. Þegar að því kemur að við förum að selja orkuna úr landi munu fyrirtæki sem eru nú þegar í einkaeigu sjá þar mikil tækifæri, sem síðan verður til þess að farið verður að auka kröfur um arðsemi, sem síðan bitnar á viðhaldi á þessum mikilvægu mannvirkjum.

Það er margt sem við getum lært af nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum, herra forseti. Og samnefnari þessa alls er sá að einkavæðing (Forseti hringir.) orkunnar hefur aldrei gefið góða raun. Við þekkjum það hér að heiman, frá því að Hitaveita Suðurnesja var einkavædd, að það hafði margvíslegar afleiðingar fyrir notendur, einkum í formi hærra orkuverðs.